Mér fannst gífurlega erfitt að sætta mig við að ég væri hommi. Ég er fæddur fatlaður og oft fannst mér það nógu erfitt að vera öðruvísi en „normið“. Það hentaði mér ekki að vera í íþróttum, að hjóla, smíða, prjóna og allar fínhreyfingar voru erfiðar. Allt þetta sem var ekkert mál hjá jafnöldrum mínum.

Ég hætti að reyna að hjóla þegar ég var 8 eða 10 ára, því það var gert grín að mér fyrir að vera enn með hjálpardekk. Ofan á þetta átti ég líka erfitt með lestur. Í framhaldsskóla kom í ljós að það var vegna lesblindu. En svona var ég fæddur og gat ekki breytt því. Ég lærði að sætta mig við það og ég var með góða afsökun fyrir að vera svona öðruvísi: Ég var fæddur fatlaður. Ef ég hafði áhuga á að gera eitthvað þá bara gerði ég mitt besta í því.

En ég fann að ég var ekki bara öðruvísi af því ég var fatlaður. Mér fannst líka gaman að My little pony leikföngum, prinsessum og kjólum. Svona léku strákar sér ekki og stundum var mér strítt út af því en ég sagði engum frá því.

Fjölskylda mín leyfði mér að leika mér með Pony hestana mína en aldrei þorði ég að taka af skarið og mæta einhvers staðar í kjól. Svona komst ég í gegnum lífið þegar ég var yngri, ég bara faldi „veikleika“ sem ég gat falið og fyrir sjáanlegu „veikleikana“ var fötlunin löggild afsökun. Að vissu leyti vissi ég alltaf að ég væri hommi.

Ég vildi samt ekki vera hommi, ég vildi ekki bæta því ofan á erfiðleikana vegna fötlunarinnar. En þegar það kom að því að taka skrefið lærði ég að svona væri ég allur, sama hvað og svona mundi ég alltaf vera.

Ég er samkynheigður karlmaður sem er dragdrottning og er með líkamlega fötlun. Mér var orðið alveg sama og fann fyrir litlum fordómum í fyrstu. Þið megið kalla mig hann eða hún, mér er alveg sama, fyrir mig skiptir það ekki máli. Ég byrjaði að læra að elska sjálfan mig.

Starína