Ég kom út úr skápnum árið 2002 sem hommi og dragdrottning og ég hef fundið fyrir miklum fordómum bæði vegna fáfræði en líka vegna haturs, bæði frá gagnkynhneigðum og hinsegin fólki. Sumir skilja ekki af hverju ég elska að fara í drag. Aðrir skilja ekki af hverju ég er að reyna það af því að það er stundum erfitt fyrir mig að ganga á hælum og jafnvel mála mig sjálfur vegna fötlunarinnar.

Ég hef orðið var við fordóma þegar ég umgengst hinsegin fólk vegna útlits míns. Ég er lítil, skakkur og furðulegur. Ég er ekki þessi staðalmynd af homma og finnst eins og ég passi hvergi inn. Ég er frekar kvenlegur og fólk heldur oft að ég sé kona.

Til dæmis ef ég er að tala í síma þá ákveður fólk strax að það sé að tala við einhvern annan. Það segist þurfa að tala við „Ólaf sjálfan“ þó ég sé búinn að kynna mig. Það væri kurteisara að segja „Fyrirgefðu, sagðistu ekki vera Ólafur?“ Ég tek meira eftir þessu á seinni árum, einhvern veginn eins og veröldin sé alltaf að flokka mann og reyna að setja mann í einn flokk.

Þetta var auðveldara þegar flokkarnir voru tveir þegar ég var yngri, strákur og fatlaður. En nú eru þeir fleiri: strákur, fatlaður, samkynheigður, og dragdrottning. Ég passa inn í alla þessa flokka en samt ekki alveg.

Ég held að sjálfstraustið skipti miklu mál, þegar maður hefur orðið fyrir miklum fordómum er eðlilegt að maður sé ekki með mjög mikið sjálfsálit og þá fer maður jafnvel að misskilja forvitni og fáfræði sem árás á mann sjálfan. Ef við erum með gott sjálfsálit sjálf, þá hættum við líka að gagnrýna aðra. Svo byrjum á því að elska okkur eins og við erum og kennum fólki að gera það sama.

Starína