„Er þetta stelpa eða strákur?“ er spurning sem margir velta fyrir sér þegar þeir labba framhjá ókunnugum aðila sem ekki er auðvelt að kyngreina.
Kynin eru bara ekki eins einföld og margir vilja halda … Ég hef í gegnum árin komist að því að ég er trans. Það þýðir að ég er í raun ekki sama kyn og mér var úthlutað við fæðingu.
Þegar læknar tóku mig upp og horfðu á nýburakynfærin mín var foreldrum mínum tilkynnt að þau ættu stúlkubarn. Ég lifði fyrstu ár lífs míns sem hamingjusamt barn, en um 12 ára aldurinn sökk ég frekar djúpt andlega, fór að skaða mig viljandi og leið ofsalega illa. Ég flakkaði á nokkrum árum milli sálfræðinga og hjúkrunarfræðinga sem greindu mig með þunglyndi á alvarlegu stigi og sennilega innbyrgða reiði. Á þeim tíma áttaði ég mig ekki á því hvernig þessi reiði-greining gat verið sönn, en nú skil ég það ofsalega vel, því ég var týndur og enginn gat hjálpað mér.
Núna, 20 árum síðar, er lífið allt annað. Þegar ég var að ljúka grunnskólanum fór ég að þvælast með vinum mínum á hinsegin fundi, og kynntist þar alls kyns skilgreiningum og fór að velta hlutunum fyrir mér.
Ég ákvað í byrjun menntó að fara að prufa mig áfram og finna mig, því það var eitthvað sem passaði ekki. Ég kom út fyrir vinum mínum sem kynsegin, en lét þau þó vita að það gæti allt eins verið tímabundið, ég væri bara að reyna að finna mig. Ég fór að lifa frekar frjálslega, klæddi mig eins og mér þótti best og hætti að spá hvað öðrum fannst.
Ég komst fljótt að því að mér leið best þegar fólk kallaði mig „vinur“ og notaði karlkyns fornöfn. Ég kom svo hálfu ári síðar út sem trans maður, og fékk svakalega góðar móttökur.
Eftir að ég kom mér loksins út úr skápnum gat ég hætt á þunglyndislyfjunum mínum og hef síðan átt frekar auðvelt með lífið almennt. Ég er byrjaður á hormónum, sem ég fæ sprautað í mjöðm á 10 vikna fresti, er á biðlista fyrir brjóstnám og gæti ekki verið hamingjusamari. Ég er kannski ekki karlmennskan uppmáluð, en ég er samt nákvæmlega sá sem ég er og vil vera.