Þegar ég fæddist fékk ég stimpilinn „stelpa“. Ég valdi ekki þennan stimpil, enda hafði ég hvorki vit né skoðun á málinu þegar ég hlaut þennan titil. Ég ólst upp með þennan stimpil, en það er ýmislegt sem fylgir honum.

Ég fékk alveg að vera ég sjálfur þannig, en ég vissi samt að ég ætti að haga mér og klæða mig á ákveðinn hátt. Það að eiga að vera stelpa truflaði mig ekki, ég var töffari („tomboy“) og gerði að mestu bara það sem ég vildi. Ég óskaði þess samt alltaf að hafa fæðst sem strákur, alveg frá því að ég var krakki og langt fram eftir aldri, fannst það passa mér betur, vera meira spennandi.

Þegar ég varð unglingur fór ég oftar að reyna að passa í kassann, svo að segja. Ég reyndi m.a. að vera pæja, en það entist aldrei lengi, ég varð mikill femínisti og það hjálpaði mér að halda áfram að gera það sem ég vildi.

Ég fór ekki að pæla í kyninu mínu af alvöru fyrr en ég var orðinn 19 ára. Ég horfði á myndband, og fattaði allt í einu að ég gæti verið trans, að ég mætti vera strákur, að það væri hægt. Það var eins og það hefði kviknað ljós í höfðinu á mér. Ég hugsaði um lítið annað næstu mánuðina. Í hvert skipti sem ég þurfti að kynja mig í hugsunum mínum, sem er rosalega oft ef þið hugsið út í það, fór ég að hugsa um kyn mitt: „Ég er svöng … svangur? … svangt? Hvað er ég?“ Ég sagði kærustunni minni eiginlega strax hvað ég var að hugsa og hún bauðst til að nota karlkyn um mig þegar við værum ein. Eftir eina viku var jafn skrítið að hún notaði karlkyn eins og að allir aðrir notuðu kvenkyn, eins og þau höfðu gert í meira en 19 ár.

Ég keypti mér í framhaldið binder, sem fletur út bringuna, og „stráka“föt. Ég hef í rauninni ekki farið í annað síðan.

Ég mun alltaf muna fyrsta skiptið sem ég fór í binder og nýjan bol, ég horfði í spegil og það var eins og ég væri að uppgötva spegilmynd mína í fyrsta skipti, eftir það var erfitt að snúa aftur. Eftir að hafa séð MIG í speglinum var rosa skrítið að sjá einhvern annan. Ég hélt áfram að hugsa um kyn mitt en nú hef ég valið að breyta stimplinum mínum, ég er ekki stelpa, hef aldrei verið og mig langar ekki að þykjast lengur. Ég er trans masculine, eða bara trans strákur. Allir hafa tekið mér mjög vel og ég er frjálsari og einlægari en ég hef verið í mörg ár.

 

Nafnlaus innsending