Samtökin ‘78 eru elsti félagsskapur hinsegin fólks sem enn er starfandi. Þau voru stofnuð árið 1978 sem vettvangur fyrir félagslíf og réttindabaráttu samkynhneigðra. Hörður Torfason var helsta driffjöðurin í stofnun félagsins en fyrsti formaðurinn var Guðni Baldursson. Samkynhneigðir karlar voru ráðandi í starfinu framan af en nokkrar konur gengu þó til liðs við samtökin á upphafsárunum. Fyrsta konan til að gegna formennsku í samtökunum var Lana Kolbrún Eddudóttir sem sat á árunum 1989-1990 og 1993-1994 og smám saman urðu raddir og hagsmunir kvenna meira ráðandi innan samtakanna.

Það var þó ekki fyrr en undir lok 20. aldar sem félagsmenn Samtakanna ‘78 fóru að huga að baráttu annarra hópa en samkynhneigðra. Árið 1993 sagði hópur félaga sig úr samtökunum þegar aðalfundur felldi þá tillögu að veita tvíkynhneigðu fólki inngöngu í félagið. Hópurinn stofnaði sín eigin samtök Félagið – réttindafélag tvíkynhneigðra og samkynhneigðra en sá félagsskapur lognaðist út af loksins þegar Samtökin ákváðu að hleypa tvíkynhneigðu fólki inn í félagið árið ????. Árið ???? samþykkti aðalfundur að veita transfólki aðild að félaginu og við það tækifæri var heiti félagsins breytti í Samtökin ‘78, félag hinsegin fólks á Íslandi til að það gæti rúmað sístækkandi flóru kynhneigða og kynvitunda án þess að þurfa í sífellu að breyta um nafn.

Samtökin ‘78 eru í dag stærstu og þekktustu félagasamtök hinsegin fólks á Íslandi. Ólíkir hópar hinsegin fólks eiga aðild að félaginu og á síðustu árum hefur samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og trans fólki borist aukin liðsstyrkur frá kynsegin, pankynhneigðum og eikynhneigðum, svo dæmi séu tekin. Verkefni þess eru margvísleg: réttindabarátta, hagsmunagæsla, fræðsla, ráðgjöf, félagsstarf og margt margt fleira. Þar getur hinsegin fólk og aðstandendur þeirra fengið ókeypis ráðgjöf, sótt fundi hjá fjölbreyttum starfshópum og fengið aðgang að félagslegum vettvangi hinsegin fólks.

Samtökin 78

Suðurgötu 3

101 Reykjavík

www.samtokin78.is