Ég er karlkynhneigður sískynja maður. Oftast tala ég um að vera hommi þar sem það er að mörgu leyti svipað og að vera karlkynhneigður og ég nenni ekki alltaf að útskýra hver ég er.
Ég kom fyrst út sem tvíkynhneigður af því að mér fannst í raun ekkert að tilhugsuninni að vera með konum en samt hafði ég í raun aldrei orðið hrifinn af konu. Stuttu síðar fór ég því bara að tala um mig sem homma og í daglegu tali og taldi mér einfaldlega trú um að ég væri bara hommi.
Mörgum árum síðar kynntist ég pan hugtakinu og þá fóru hjólin að snúast hjá mér. Ég áttaði mig á því að það voru ekki beint líkamleg einkenni sem ég varð hrifinn af, þó ég heillist alveg af fallegum líkömum.
Ég varð hrifinn af persónunni sjálfri. Ég hafði aldrei verið hrifinn af svona einnar nætur gamni þótt það hefði stundum verið afskaplega gott og gaman. Oft var ég að stunda slíkt með mönnum sem ég þekkti ekki neitt af einhverri skyldurækni við karlmennsku mína og oftast voru það menn sem tikkuðu ekki endilega í réttu karlmennskuboxin fyrir mig. Þótt einstaka menn heilluðu mig upp úr skónum með útlitinu einu fór ég að átta mig á því að ég varð frekar kynferðislega og tilfinningalega hrifinn af persónum út frá samskiptum okkar frekar en útliti þeirra.
Þegar þessar pælingar fóru af stað fór ég að átta mig á því að ég hafði jú alveg verið hrifinn af einstaka vinkonum mínum.
Ég skildi samt ekki alveg af hverju aðrar konur sem ég þekkti og náði mjög vel saman við heilluðu mig ekki neitt. Það rann svo upp fyrir mér að þær konur sem ég hafði heillast af áttu það allar sameiginlegt að hafa einhver karllæg einkenni sem heilluðu mig.
Hvort sem það var í framkomu, fasi, klæðaburði eða einhverju öðru þá var alltaf eitthvað karllægt í þeirra fari sem ég tók sérstaklega eftir sem heillaði mig ótrúlega mikið. Á sama tíma áttaði ég mig á því að karlmenn sem voru kvenlegir í fari heilluðu mig lítið.
Ég skildi það svo fyrst almennilega þegar ég kynntist trans manni sem ég varð virkilega hrifinn af. Hann var þá tiltölulega nýbyrjaður í sínu ferli og átti eftir að átta sig á ýmsu um sjálfan sig. En ég kom sjálfum mér svolítið á óvart hvað mér þótti það allt eðlilegt og sjálfsagt. Samband okkar entist reyndar ekki lengi en ég lærði að skilja endanlega að kynfæri og kynvitund voru ekki aðalatriði þegar kom að því hverjum ég heillaðist að.
Ég laðast að karlmennsku. Það getur þýtt kafloðin bringa, djúp rödd, ákveðin hegðun sem ég tengi við karlmennsku o.s.frv. Það þýðir þó alls ekki að hvaða karl sem er heilli mig.
Það eru ákveðin einkenni sem heilla mig á meðan önnur einkenni virka þveröfugt á mig. Það hefur tekið mig langan tíma að kynnast mér almennilega en það er frelsandi að læra meira um sjálfan mig og skilja kynhneigð mína betur á mínum forsendum.