Hinsegin – queer
Orðið hinsegin hefur margvíslegar merkingar og skírskotanir. Í hinsegin umræðu hérlendis hefur það öðlast sess sem regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk. Orðið hefur verið notað í þessari merkingu í það minnsta frá árinu 2000. Árið 2009 var heiti Samtakanna ´78 breytt úr „félag lesbía og homma á Íslandi“ í „félag hinsegin fólks á Íslandi“. Í ársskýrslu Samtakanna 2008 – 2009 er þessi breyting, þá tillaga að breytingu, sögð vera til þess fallin að „auka samstöðu félaga um einn ákveðinn samnefnara, ásamt því að gera fólki kleift að finna sér stað innan félagsins á eigin forsendum“. [1] [2]
Pólitískt andóf
Hugtakið hinsegin hefur einnig ákveðna pólitíska skírskotun og felur þá í sér höfnun á gagnkynhneigðum normum samfélagins. Þessa notkun orðsins má til að mynda sjá í pistli þáverandi formanns Félags samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans stúdenta, þegar nafni félagsins var breytt í Q – félag hinsegin stúdenta árið 2008. Þar tekur hann fram að nafnbreytingin sé til þess fallin að „sameina okkur öll í einum málstað“ sem eru sömu rök og notuð voru fyrir nafnabreytingu Samtakanna ´78 en bætir við að samnefnarinn sé sá að „eitthvað í fari okkar er í andstöðu við það sem samfélagið ætlast til, á skjön við hið gagnkynhneigða forræði, kerfi ótalmargra breyta þar sem aðeins þröng einkunn/afstaða þykir „venjuleg“ hverju sinni“. [3] [4] Núverandi formaður Samtakanna ´78, Hilmar Hildarson Magnússon, hefur tekið í sama streng og segir orðið til þess fallið að sameina fólk sem er í andstöðu við kerfið. Kerfið sem gefur fólki bara tvo kosti, karl eða kona, og ályktar að allir séu gagnkynhneigðir. [5] Hugtakið virðist því bæði á vettvangi Samtakanna ´78 og Q – félags hinsegin stúdenta, þjóna tvíþættum tilgangi, tilgangi regnhlífarhugtaks annars vegar og hins vegar pólitísks hugtaks sem lýsir andstöðu við kúgandi kerfi.
Endurskilgreining
Áður var hinsegin hugtakið stundum notað sem samheiti yfir það að vera samkynhneigður eða sem lýsing á „afbrigðilegri“ kynhegðun, þá oftast á niðrandi hátt. Orðið á sér því dökka sögu kúgunar, jaðarsetningar og fordóma en hefur á undanförnum árum verið notað af hinsegin fólki sem jákvætt, sameinandi orð. Fjölmörg dæmi eru um orð sem hafa verið endurskilgreind á þennan hátt af þeim hópum sem um ræðir hverju sinni. Á ensku eru þetta til að mynda orðin nerd (nörd), slut (drusla), crip (krypplingur) og queer (hinsegin).
Þessi endurskilgreining áður niðrandi orða þjónar mikilvægum tilgangi í réttindabaráttu jaðarsettra hópa og getur stuðlað að bættri stöðu hópsins í samfélaginu. Orð sem áður var notað til að gera margbreytileikan fyrirlitlegan er nú notað til að fagna fjölbreyttum kynhneigðum, kyneinkennum og kynvitundum.
Slík endurskilgreining er aldrei einföld eða sársaukalaus. Sjá má merki þess að ekki sé einhugur um noktun orðsins meðal þeirra sem falla undir þá flokka sem hugtakið ætti að sameina og hefur þess til að mynda orðið vart á samfélagsmiðlum. Þannig lýsti samkynhneigð kona því til að mynda í pistli að sér þætti orðið niðrandi og meiðandi. Andstaðan virðist einkum koma frá samkynhneigðu fólki en síður frá fólki sem tilheyrir jaðarhópum innan hinsegin samfélagsins, enda stuðlar notkun hugtaksins að auknum sýnileika þessara jaðarhópa. Hluti gagnrýninnar hefur einnig beinst gegn pólitískri merkingu hugtaksins (þ.e.a.s. afstöðunni gegn ríkjandi kerfum) og hefur þannig snertifleti við umræðuna um hvort berjast eigi fyrir samlögun eða því að fá að vera öðruvísi.
Stafasúpan
Á sama tíma virðast engar aðrar tillögur hafa komið fram um sameinandi hugtak yfir ólíka hópa sem þjónað gæti hlutverki regnhlífarhugtaks á íslensku. Skammstafanir á borð við LGBTQIA (lesbian, gay, bisexual, transsexual, queer, intersex, asexual/ally) eða STT (samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, trans) hafa ekki náð að festa sig í sessi hérlendis. Þær hafa að auki þá tilhneigingu að lengjast mjög og ná þó ekki að vísa til allra hópa eða einstaklinga í menginu því orðanotkun og sjálfsmyndarpólitík er síbreytileg. Til að mynda vantar pankynhneigða og klæðskiptinga í báðar þessar upptalningar. Hættan er sú að einmitt þeir hópar sem þurfa mest á öflugum málsvara að halda komist ekki inn í stafarununa og finni sig þá síður velkomna en aðrir hópar. Þá má einnig nefna að skammstafanir hafa ekki þá pólitísku skírskotun sem hinsegin hugtakið getur haft og rakið er hér að framan.
Skildu eftir athugasemd
Hefurðu eitthvað fram að færa?Endilega láttu ljós þitt skína