Ég hef þangað til fyrir nokkrum mánuðum skilgreint mig sem lesbíu, hef alltaf hrifist af mjög strákalegum stelpum, því strákalegri, því meiri hrifning. Geri mér grein fyrir því núna að sumar af þeim hafa líklega verið kynsegin.

Þegar ég lít til baka þá hef ég aldrei verið með, hvorki í sambandi né verið að deita, manneskju sem er ekki frekar strákaleg. Og hef þ.a.l. verið spurð, ertu ekki bara tvíkynhneigð? Þá svaraði ég, nei, því ég hrífst ekki af karlmönnum, ég hrífst af karlmannlegum konum.

Núna myndi ég svara, nei ég hrífst af manneskjum sem skilgreina sig kynsegin, en var úthlutað líkama konu við fæðingu. Ég er í sambandi með kynsegin manneskju núna, þetta í fyrsta skipti sem ég er í sambandi með manneskju sem opinberlega skilgreinir sig kynsegin. Það er æðislegt, mér hefur aldrei liðið eins vel í sambandi og aldrei fundist ég eins heil, ef ég get orðað það þannig. Mér finnst við passa einhvern veginn. Hann/hún upplifir sig hvorki sem karl né konu og notar fornöfnin hann/hún. Í byrjun sambandsins þá notaði ég fornafnið hún ef ég var að tala bara um hann/hana, en hann ef ég var að tala um okkur bæði. En svo fljótlega fór ég oftar að nota fornafnið hann. Í dag nota ég alveg bæði fornöfnin, en nota oftar hann, kannski af því mér finnst það passa aðeins betur.

Ég hef alveg þurft að útskýra fyrir fólki, bæði hugtökin, að vera kynsegin og kynseginhneigð (skoliosexual). En ég er svo heppin að eiga frábæra fjölskyldu sem er með opinn hug og tekur mér og okkur bara eins og við erum.

Það er svo frábært að það séu að koma nöfn á allar þessar skilgreiningar, því mörgum finnst mikilvægt að geta skilgreint sig. Það skiptir mig máli að geta skilgreint mig. Mér finnst kynseginhneigð alveg frábært íslenskt orð yfir skoliosexual, mér finnst það passa mjög vel, að minnsta kosti við mig. Það er nákvæmlega eins og mér líður. Ég er kynseginhneigð og ég er stolt af því.

Nafnlaus innsending