BDSM á Íslandi er alveg ein af ástæðunum fyrir því að ég er ennþá hér, eins klisjulega og það hljómar.

Ég hef alltaf verið BDSM hneigður, undirgefinn masókisti og skammast mín ekkert fyrir það. Ég hugsa að ég hafi verið 11 eða 12 ára þegar ég fór almennilega að hugsa út í það. Samt sem áður talaði ég ekkert um það fyrr en á framhaldsskólaárunum.

Árið 2016 var árið sem ég „kom út“. Fyrir sjálfum mér, foreldrunum, fjölskyldunni, fyrir öllum. Ég fór í gegnum mikið það ár. Ég hætti með fyrsta kærastanum mínum, við höfðum verið saman í nær 5 ár. Eftir það var hægt að segja að ég varð virkur í senunni, eins og það er kallað. Ég kom fram á þeim tíma sem var frekar strembinn í „hinsegin samfélaginu“. BDSM félag Íslands hafði sótt um sem aðildarfélag hjá Samtökunum ’78. Ég varð hrikalega sár við að sjá umræðurnar. Fordómarnir voru hreint ótrúlegir. Sem betur fer fóru hlutir vel, eftir hrikalega tilfinningaríkan og þéttsetinn aðalfund S78 fékk félagið (í þriðja skiptið) aðild að Samtökunum.

Allan þann tíma, sem nokkuð hræddur en mest sár og reiður lítill nýliði, fann ég fyrir svo mikilli hlýju og umhyggju frá því yndislega fólki sem er BDSM félagið. Ég var svo þakklátur fyrir að hafa þau og allt sem þau gerðu fyrir mig þó að við hefðum bara þekkst í nokkra mánuði.

Núna einu ári síðar hef ég lært heilan helling af þeim, þroskast sem einstaklingur og kann meira á sjálfan mig. Ég get ekki lýst stoltinu og hamingjunni yfir að fá að tilheyra þessum hóp.

Hrafn Elí Gunnars