Ég var orðin fullorðin þegar ég fattaði að ég væri samkynhneigð. Ég var samt aldrei að fela mig, því ég vissi í alvörunni ekki að ég laðaðist að konum fyrr en einn góðan veðurdag þegar það rann upp fyrir mér. Ég tók mér viku í að hugsa málið og sannfæra sjálfa mig um að ég væri ekki ímyndunarveik og svo kom ég út fyrir fjölskyldu og vinum. Ferlið var fremur auðvelt, allir tóku mér vel og hinir sem voru efins höfðu vit á að þegja. Ég uppgötvaði að alls konar samskipti og tilfinningar sem áður höfðu verið flóknar og valdið kvíða voru uppspretta ánægju og allt í einu var eins og lífið meikaði sens, þótt ég hefði ekki vitað að það meikaði ekki sens. Það var eins ég hefði verið að reyna í öll þessi ár að klára púsluspil án þess að gera mér grein fyrir því að einn kubburinn væri á vitlausum stað.

Það eru forréttindi að geta komið út á þennan hátt. Kynslóðirnar á undan mér og margt fólk af minni eigin kynslóð hefur þurft að fela sig og berjast við alls konar hindranir en ég gat gert hreint fyrir mínum dyrum um leið og ég áttaði mig á því hvað var í gangi og allt var áfram með ró og spekt. En eftir stendur spurningin: fyrst fólkið í kringum mig var svona skilningsríkt, af hverju tók það mig þá svona langan tíma að fatta að ég væri samkynhneigð?

Í öll þessi ár vissi ég vel að samkynhneigð væri til og ég man eftir að hafa spurt sjálfa mig hvort ég væri ekki bara lesbía. Svarið var þá nei, því ég hreifst ekki kynferðislega að konum þótt ég upplifði vissulega sterkar tilfinningar til þeirra. Ég vildi eiga sumar vinkonur mínar algjörlega út af fyrir mig og varð stundum vitlaus af afbrýðisemi og angist ef þær sýndu öðrum meiri athygli en mér – en lesbía var ég ekki. Ég dró mjög skýra línu þarna á milli og skilgreindi kynferðislega hrifningu á þann hátt að ég gat sannfært sjálfa mig um að slíkt hefði ég aldrei upplifað gagnvart konu.

Þessi þrönga, og mjög kynferðislega, skilgreining mín á því hvað það væri að vera lesbía hefti mig. Ég þekkti engar lesbíur og umgekkst aldrei konur sem ég vissi að hrifust af öðrum konum og hafði engan grundvöll til að ræða um slík málefni af alvöru.

Þess vegna er umræða um kynlíf, hrifningu, sjálfsmynd og hinsegin málefni svo mikilvæg, því ef við tölum ekki um slíkt trúum við bara því sem við höfum á einhverjum tímapunkti ákveðið að sé satt og rétt, sem oft er litað af steríótýpum og fordómum samfélagsins. Ef ég hefði lesið vefsíðu eins og Hinsegin frá Ö til A á sínum tíma hefði ég áttað mig á samkynhneigð minni miklu fyrr. Hvort lífið hefði verið auðveldara eða betra veit ég ekki, en það hefði allavega verið öðruvísi og talsvert meira spennandi.

Nafnlaus innsending