Seint á 8. áratugnum sá ég frábæra kvikmynd sem heitir Naked Civil Servant. Myndin fjallar um líf breska hommans Quentin Crisp frá barnæsku og til fullorðinsára. Ég heillaðist af orðheppni hans, skopskyni og gáfum en það sem töfraði mig upp úr skónum var hispursleysi Crisps, klæðaburður og að hann notaði meiköpp.

Hann klæddist fötum, bæði þá og nú var kallaður kvenfatnaður. Þannig var hann alla daga og gerði það af miklum elegans. Föt eru föt og þau eru þarna úti í veröldinni fyrir alla sem vilja nota þau. Fatastíll hans var honum svo eðlilegur og í blóð borinn að unun var á að horfa og ég sagði við sjálfan mig: „Svona vil ég vera“. Í huganum var ég svona.

Þegar ég horfði á myndina endurlifði ég stundir frá því ég var unglingur að prófa meiköppið og varalitina sem mamma og elsta systir mín geymdu í baðskápnum og gamla kjóla og pils sem geymd voru innst í klæðaskápnum og í geymslunni. Það var æði. En þá, og hvað þá eftir að ég sá myndina um Crisp, þorði ég ekki að stíga út úr skápnum en löngunin til að gera það var alltaf með mér. Stundum sé ég eftir því en öðrum stundum hef ég ímyndað mér að hefði ég stigið skrefið fyrr hefði það orðið mun erfiðara. Það hefði verið enn erfiðara gagnvart mörgum í stórfjölskyldunni þegar ég gekk út í heiminn. Samfélagið hefur breyst og fólk á Vesturlöndum er víðast opnara og jákvæðara; aldur og reynsla styrkja fólk, eða það ímyndaði ég mér.

Þegar ég loksins spyrnti frá botni var ég orðin 49 ára og bjó á Englandi, heimalandi Crisps, og myndin um hann var ennþá í huga mér. Erlendis fannst mér ég ég betur í stakk búin til að mæta lífinu eins og ég er.

Mér fannst að hefði ég stigið þetta mikilvæga skref þegar ég var yngri þá hefði ég brotnað. Í útlöndum lifði ég drauminn minn og naut þess að nota meiköpp og klæða mig samkvæmt draumnum mínum. Mér leið vel og átti og á þar enn kæra vini og gamla kærasta sem ég hugsa til með þakklæti og hlýju. Þarna var auðvelt og gaman að ganga til móts við lífið. Ég naut þess þá og nýt þess enn að eiga tvær dætur sem ég þakka fyrir alla daga því þær hafa alltaf staðið þétt við hlið mér. Þær eru ómetanlegur fjársjóður.

Magnús Gestsson