BDSM er án efa hluti af kynhneigð minni eða kynverund og hefur líklega verið það alla tíð. Það fara allir í gegnum eitthvað ferli þar sem þeir læra inn á sjálfa sig, hvað þeir vilja og svoleiðis. Áhugi og langanir í átt að BDSM koma fram mjög snemma í því ferli. Aðrir BDSM-hneigðir sem ég þekki hafa sömu sögu að segja. Það er auðvitað svo misjafnt hvað fólk vill og fílar og misjafnt hversu „afgerandi óhefðbundið“ það telst.  Ferlið, að átta sig á því að það sé BDSM sem maður er fyrir og að taka það í sátt, er þess vegna mjög mismunandi.

BDSM er álitið afbrigðilegt og það hefur auðvitað áhrif á sjálfsmyndina, maður getur innbyrt fordómana og notað þá gegn sjálfum sér. Það er ekki sjálfgefið að fólk sé tilbúið að vera opið eða „úti“ með BDSM-hneigð af ótta við að það sé notað gegn því.

Mörgum finnst erfitt að upplifa sig óheiðarlega vegna þess að það heldur hluta af sjálfu sér leyndu af ótta við fordóma. Það hjálpar ótrúlega að til sé samfélag á Íslandi þar sem maður getur kynnst öðrum í sambærilegri stöðu. Bara að geta einhvers staðar rætt opinskátt um þessa hluti þar sem maður getur treyst því að fordómarnir fái að bíða úti er ótrúlega dýrmætt.

En svo er það svo merkilegt að í þessu samfélagi er öllum tekið eins og þeir eru og áherslan á virðingu fyrir fólki er til eftirbreytni. Það er líka mikil áhersla á alls kyns öryggisatriði og að hlúa að tilfinningum fólks, sem er svo mikilvægt. Án þessa samfélags og viðhorfsins sem þar ríkir væri margfalt erfiðara að læra að taka sjálfan sig í sátt.

Það er svo skelfilega erfitt og vont þegar fólk er í stríði við sjálft sig og það er svo mikilvægt að geta verið sáttur með það hver maður er og hvernig maður er. Það er mér mjög mikilvægt að vera kynvera á eigin forsendum. Ég þarf ekki að uppfylla hugmyndir annarra um hvers konar kynvera ég ætti að vera.

Nafnlaus innsending