Hvað er BDSM?
Mörkin milli kinks* og kynhneigðar eru stundum óljós. Margt fólk sem tilheyrir BDSM-samfélögum lítur á BDSM sem sína kynhneigð á meðan aðrir líta fremur á það sem lífsstíl eða áhugamál. Skrif þrítugrar konu á bloggsíðu sinni lýsa því fyrrnefnda:
„Orðfærið í dag er að BDSM sé hneigð og partur af kynverund fólks. Rökin á bak við það eru að það gengur álíka vel að lækna fólk af BDSM hneigð eins og samkynhneigð. Ef að þú spyrð einhvern hvort að hann myndi frekar vilja missa hönd eða hætta að stunda BDSM þá fer viðkomandi e.t.v. að spá hvar höndin yrði skorin og yrði það hægri eða vinstri.“
Ýmsar skilgreiningar eru til á BDSM. Á vef félagsins BDSM á Íslandi kemur fram að BDSM standi fyrir bindingar, drottnun (og undirgefni), sadisma, masókisma, skynjun og munalosta. Þar er einnig tekið fram að hvers kyns bindi-, valda- eða munalostaleikir sem geta fallið undir BDSM þurfi að uppfylla þrjú skilyrði til að geta talist BDSM: að vera öruggir, meðvitaðir og samþykktir.
- Öryggi: Allir BDSM leikir þurfa að vera öruggir þannig að ekki verði varanlegt eða langvarandi líkamlegt eða andlegt tjón.
- Meðvitund: Allir þátttakendur verða að vera meðvitaðir og gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að gera.
- Samþykki: Allir aðilar leiksins verða að vera samþykkir því sem þar fer fram.
BDSM og hinsegin samfélagið
BDSM-samtök eru víða virkir þátttakendur í hinsegin samfélaginu og taka sums staðar þátt í pride-göngum. Hérlendis tóku félagar í BDSM á Íslandi um árabil þátt í gleðigöngu Hinsegin daga undir merkjum MSC hópsins og árið 2015 var að minnsta kosti eitt atriði skipað að hluta til einstaklingum sem aðhyllast BDSM. Árið 2014 ræddu BDSM-samtökin við forsvarsfólk Hinsegin daga í Reykjavík og þar var ákveðið að BDSM tæki ekki þátt í göngunni það árið en yrðu þess í stað með fræðslufund að ári liðnu. Það gekk eftir og árið 2015 var haldinn fræðslufundur sem bar yfirskriftina BDSM, kynhneigð eða áhugamál? þar sem rætt var um skaranir BDSM og hinsegin samfélagsins. Magnús Hákonarson, formaður BDSM á Íslandi, bendir á að bæði hinsegin hreyfingar og BDSM-samtök tali fyrir því að kynhegðun sem er utan samfélagslegra norma sé ekki fordæmd. Þannig eigi BDSM-samtökin sameiginlegan hugmyndafræðilegan grundvöll með hinsegin hreyfingum. Í báðum hreyfingum hefur verið lögð áhersla á að upplýsingar um öryggi og samþykki á jafningjagrundvelli séu ofar öllum samfélagslegum dómum um hvað sé viðurkennd kynhegðun hverju sinni.
Þátttaka BDSM á Íslandi í hinsegin samfélaginu hérlendis hefur verið óumdeild innan BDSM á Íslandi en umdeild bæði innan hinsegin samfélagsins og almennt í þjóðfélaginu. Árið 2016 áttu sér stað umtalsverðar deilur innan Samtakanna ’78 eftir að félagið BDSM á Íslandi sótti um hagsmunaaðild að þeim. Nokkrum hópi fólks, bæði innan og utan hinsegin samfélagsins, þótti markmið félaganna tveggja ekki vera nægilega skyld til að það réttlætti hagsmunaaðild. Öðrum þótti sjálfsagt að styrkja samvinnugrundvöll félaganna með þessum hætti enda ætti hagsmunabarátta BDSM-hneigðra og annars hinsegin fólks margt sameiginlegt. Að loknum miklum umræðum í og utan netheima fór svo að BDSM á Íslandi hlaut hagsmunaaðild á auka-aðalfundi Samtakanna ’78 í september 2016.
BDSM og femínismi
Femínistar hafa tekist á um hvort BDSM geti átt sér stað undir formerkjum jafnréttis og virðingar. Margir þeirra, til dæmis Diana Russell, eru þeirrar skoðunar að BDSM-kynlíf geti aldrei farið fram með samþykki; það sé í eðli sínu ofbeldi og að það gangi að miklu leyti út á að kúgun kvenna sé gerð kynferðisleg. Aðrir femínistar hafa bent á að grundvallarreglur BDSM séu ósamræmanlegar kúgun; þær gangi út á fullt, upplýst og óþvingað samþykki. Þeir benda á að það lýsi mjög kúgandi hugmyndafræði þegar fólk heldur að konur sem taka þátt í að vera undirskipaðar (submissive) í BDSM séu undir áhrifum feðraveldisins og geti í raun ekki sagt hvað þær vilja. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna hljóti að vera grundvallarhugmyndafræði femínista og hann eigi líka við um þátttöku í BDSM. [1] [2]
* Þegar fólk talar um kink er yfirleitt átt við kynferðislegan smekk sem fellur ekki að normum samfélagsins.
BDSM
BDSM stendur fyrir bindingar, drottnun (og undirgefni), sadisma og masókisma, skynjun og munalosta.